Tilgangur

Hugmyndin er að þetta sé fjölíþróttahús fyrir íþróttir sem iðkaðar eru í sandi. Drifkraftur stofnenda var þó að skapa aðstöðu þannig að hægt væri að æfa strandblak allan ársins hring. 

Fyrirtækið er ekki rekið með það sem takmark að skapa tekjur fyrir stofnendur, heldur er markmiðið að innkoma standi undir rekstri og það sé smá afgangur til að byggja upp reksturinn enn frekar og gera aðstöðuna betri.

Þetta er einkaframtak og er ekki tengt neinu einstöku íþróttafélagi og er án styrkja frá sveitafélögum eða ríki. 

Sagan

Að geta stundað strandblak allt árið hefur verið draumur margra frá því að fyrsti útivöllurinn var standsettur í Kópavogi árið 2004. Uppbygging strandblaks á landinu hófst fyrir alvöru þegar fyrsta íslandsmótið var haldið í núverandi mynd. Mótum fjölgaði á hverju sumri, íslensk landslið voru skráð til þátttöku erlendis og metnaðurinn jókst fyrir íþróttinni. 


Við áttuðum okkur þó fljótlega á því að ekki næðist að byggja upp íþróttina á Íslandi með því að æfa einungis 3-4 mánuði á ári. Við höfum því í mörg ár stefnt að því að koma upp inniaðstöðu fyrir sportið.

Árið 2012 fengum við ósk okkar uppfyllta þegar Sporthúsið tók vel í beiðni okkar um að setja upp aðstöðu fyrir strandblak. Aðstaðan var mjög mikið notuð af þeim sem stunduðu hvað mest strandblak á þeim tíma en því miður var fjöldi þeirra sem stunduðu sportið þá ekki nægilega mikill og því var aðstaðan tekin undir annað þrem árum síðar.

Síðan þá höfum við gert þó nokkrar tilraunir með að fara útí einkaframkvæmd, reynt að finna húsnæði sem hentar undir slíka starfsemi og reynt að fá leiguaðila til að leigja húsnæði á því verði að hægt sé að reka fyrirtæki sem þetta. En fram að þessu hefur það ekki gengið sökum of hárrar leigu eða húsnæðin jafnvel seld meðan á samningum stendur.

Núna sautján árum eftir að vegferðin hófst sjáum við loks ljós við enda ganganna. Hópurinn sem vinnur að því að finna húsnæði hefur stækkað til muna, öflugir einstaklingar úr ýmsum áttum koma nú að verkefninu. Við höfum fundið húsnæði sem hentar, samningar hafa náðst við leiguaðila og við vitum af stórum markhópi sem bíður í ofvæni eftir slíkri aðstöðu. 


Nú treystum við á að strandblaksamfélagið standi með okkur í þessari uppbyggingu. Við leggjum mikið undir og vonum að samfélagið leggi okkur lið með leigu á tímum í þessari flottu aðstöðu. 

Hverjir standa á bak við þetta?

Reksturinn er í höndum eignarhaldsfélagsins Sandkastalinn ehf.  Þeir sem standa á bak við það eru allt saman blakfólk eða stórir stuðningsaðilar blaksins, en þau eru:

Einar & Þórey

Eiríkur & Berglind

Grétar & Guðrún

Guðmundur & Sveinbjörg

Halldór & Jóhanna

Karl & Heiðbjört

Lee Roy & Katrín

Sigurður & Birna

Sindri & Elfa Björk